Fyrirmyndarríkið

Í OKTÓBER og nóvember, á fjögurra ára fresti, fer maður vanalega að finna lyktina af komandi alþingiskosningum. Það sem byrjaði að minna á kosningar í þetta sinn var umræðan um hagvöxt og stöðu launafólks. Mikil umræða hefur átt sér stað í fjölmiðlum undanfarið um það og hversu illa við stöndum efnahagslega gagnvart nágrannaríkjum okkar. Samanburður á brauð-, bjór- eða ostverði í nágrannalöndum okkar bregður fyrir í fjölmiðlum dögum saman.

Þó að enn sé margt sem má bæta er ekki hægt annað en að viðurkenna að við höfum það bara ágætt hér á Íslandi miðað við svo marga aðra í það minnsta. Þó að sjálfsagt sé að horfa til nágrannalanda varðandi skipulag, hagstjórn og þjónustu verðum við að taka mið af því að við erum lítil þjóð sem er búin að taka mjög miklum og róttækum efnahagslegum og samfélagslegum breytingum á örfáum árum miðað við nágrannaþjóðir okkar, sem hafa mikla sögu mistaka og þroska á bak við sig. Fyrir utan hagkerfi sem mun fleiri koma að. Fyrir kosningar keppast flokkar og núverandi eða verðandi þingmenn við að lofa. Lofa því að hlutirnir fari að gerast fái þeir nú loksins tækifæri til að láta til sína taka á þingi. Samgöngur, öryrkjar, gamla fólkið, námsmennirnir, neyslukostnaður, – allir þessir málaflokkar og margir aðrir eru teknir fyrir og bótum og breytingum lofað, að þær gerist helst korteri eftir kosningar. Það gengur jafnvel svo langt að myndast er við að byrja á einhverjum úrbótum í ákveðnum málaflokkum, eins og t.d. samgöngum. En hvað svo: kosningar liðnar og lítið sem ekkert gerist af því sem var hvað ákafast lofað. Af hverju? Mín hugmynd er sú að það sé einfaldlega ekki hægt að koma með töfralausnir á örfáum dögum, vikum eða mánuðum. Þingmennirnir breyta ekki samfélagsmynd okkar í hið fullkomna fyrirmyndarríki á afgerandi hátt á einu kjörtímabili. Sú staða sem er í dag í samfélaginu er betri en var fyrir 2 kjörtímabilum.

Ég held að það geti flestir verið mér sammála um það ef litið er heiðarlega til baka. Þrýstingur og eftirlit frá hagsmunahópum, stjórnmálaöflum og félagasamtökum hefur átt sér stað og í kjölfarið hafa orðið jákvæðar breytingar, þó þær séu hægfara. Jöfnuður er að aukast á mörgum sviðum og tækifæri og kjör meðalmannsins eru betri. Aðgengi almennings að upplýsingum og stjórnmálamönnum er gott, mun betra en í mörgum nágrannaríkjum okkar. Jöfnuður sem ekki hefur endilega orðið til vegna loforða heldur vegna stöðugrar trúar samfélagsins á að framfarir séu mögulegar og núverandi ástand hverju sinni sé ekki endilega lokaástand. Ég trúi því einnig í einlægni að börn okkar muni hafa það enn betra, eins og við höfum það að mörgu leyti betra en foreldrar okkar. Góðir hlutir gerast hægt eru kjörorð sem hafa víst mikið sannleiksgildi. Það er enn hægt að bæta heilmikið hér á landi hvað varðar nær allar hliðar samfélags okkar, sumar meir en aðrar. En við munum þó að mínu mati aldrei búa í því fyrirmyndarríki sem frambjóðendur lofa okkur oftast rétt fyrir kosningar. Breytinga er þörf, jákvæðar breytingar eru öllum til góðs. Breytingar sem munu vara og skila áframhaldandi bættum lífskjörum til samfélagsins í heild. Við berum öll ákveðna ábyrgð á því að breytingar geti orðið og finnst mér þá mestu máli skipta að horfa raunsætt á hvar þörfin sé mest og láta ekki langvarandi deilumál um framsetningu trufla okkur.

Samvinna að bættum kjörum allra er það sem ætti að einkenna fyrirmyndarríkið í dag, ekki keppni um það hvort þessi eða hinn hagsmunahópurinn fær betri kjör vegna loforða sem aðeins myndu nýtast litlum hluta okkar samfélags. Samfélag sem hefur unnið svo marga sigra á svo skömmum tíma ætti að geta horft sameinað fram á veginn í baráttu fyrir enn stærri ávinningum. Það hlýtur að vera hægt án þess að fulltrúar okkar keppist um að slá ryki í augu kjósenda í von um að þeir líti fram hjá fyrri aðgerðum. Ég vona að komandi kosningabarátta einkennist því fremur af raunhæfum vilyrðum en óraunhæfum loforðum um nýjan heim á morgun.

Höfundur er nemi við Háskólann á Bifröst.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband